Við notum vafrakökur til að greina upplýsingar um notkun vefsíðunnar til að bæta efni og birta markaðsefni. Nánar um vafrakökur LEYFA VAFRAKÖKUR

Um Litluá í Kelduhverfi


Um Litluá í Kelduhverfi

Litlaá í Kelduhverfi er bergvatnsá, sem upprunalega átti sér eingöngu upptök í lindum sem heita Brunnar við bæinn Keldunes.  Frá 1976 á hún sér einnig upptök í Skjálftavatni en það myndaðist við jarðsig í Kröflueldum. Vatnið úr Brunnum er óvenju heitt og blandast kaldara vatni úr Skjálftavatni, þannig er meðalhiti vatnsins í ánni um 12°C. Vaxtahraði fiska í Litluá er mikill undir þessum kringumstæðum og er sjóbirtingsstofn árinnar því einn sá stærsti hér á landi. Stærstu sjóbirtingarnir hafa veiðst í ofanverðri ánni. Auk sjóbirtings og staðbundins urriða veiðist nokkuð magn af sjóbleikju og einnig er von um lax í Litluá. Árið 2004 kom á land stærsti sjóbirtingur landsins, 23 punda ferlíki. Er mál manna að nokkrir slíkir haldi jafnan til í ánni, jafnvel stærri.  Í Litluá er bæði að finna fallegar flúðir, hylji, breiður og hólma.

Staðsetning: Norðausturland - um 10 km vestan við Ásbyrgi í Kelduhverfi, um 55 km austan við Húsavík.
Veiðisvæði: Litlaá er eitt veiðisvæði og sjá veiðimenn sjálfir um að skiptast á veiðistöðum. 

Stangafjöldi: 5 stangir í Litluá og 2 stangir í Skjálftavatni. Selt er sameiginlega í Litluá og Skjálftavatn.
Seld holl/dagar: Seldar stangir í hollum og stakar, heill eða hálfur dagur.
Tímabil: 1. apríl - 10. október

Daglegur veiðitími:
1. til 30. apríl: 9-21
1. maí til 15. september: 7-13 og 16-22, seinni vaktin með +/-3 klst. sveigjanleika (heild 6 tímar).
16. september til 10. október: 8-20

Leyfilegt agn: Eingöngu veitt á flugu. 
Veiðitilhögun: Eingöngu veiða/sleppa aðferð. Sjá leiðbeinigar á eftirfarandi tenglum:

https://angling.webdev.is/veida-og-sleppa/ 
https://svfr.is/svaedin/veida-og-sleppa/ 
https://www.youtube.com/watch?v=_wEScRTMbKc 
https://www.visir.is/g/2020144067d 

Veiðileyfi skal bera á sér við veiðarnar og sýna veiðiverði, sé þess óskað.

Óheimilt er að aka bifreiðum utan vegaslóða, yfir gróið land, eða þar sem skemmdir geta hlotist af. Öll meðferð skotvopna er stranglega bönnuð. Þegar tveir eru um stöng, skulu þeir vera á sama veiðistað og einungis annar má veiða í einu. Sé brotið gegn einhverri af framangreindur reglum, eða óleyfilegt agn notað, varðar það tafarlausum brottrekstri úr ánni, bótalaust.

Veiðiverði er heimilt að skoða veiðarfæri og sjá til þess að ofangreindum reglum sé framfylgt. Veiðimenn eru beðnir um að ganga vel um og sýna snyrtimennsku við ána, fleygja ekki rusli og skilja ekki girni, umbúðir né annan úrgang eftir á bökkum hennar.

Veiðimanni er skylt að skrá veiði dagsins í rafræna veiðibók í Keldunesi.

Sýnum þessari náttúruperlu virðingu.

Gistiaðstaða
Við Litluá er ekki sérstakt veiðihús. Gistihúsið í Keldunesi er mjög vel staðsett fyrir veiðimenn í Litluá og þarf ekki að keyra út á þjóðveg til að fara að ánni. Þarna má finna heitan pott, 6 tveggja manna herbergi með uppábúnum rúmum. Notaleg borðstofa og sjónvarpsstofa ásamt mjög góðri eldunaraðstöðu. Valkostur er að kaupa tilbúnar máltíðir. Einnig eru nokkur stök smáhýsi hluti af ferðaþjónustunni í Keldunesi.

Í félagsheimilinu Skúlagarði er einnig rekin ferðaþjónusta með gistingu og veitingum.
Í sveitinni er auk þess bændagisting á nokkrum bæjum.

Hentugustu veiðitæki: Einhenda 5-7.
Bestu flugur: Black Ghost, Dentist, Heimasæta, Dýrbítur, ýmsir Nobblerar, púpur, lirfueftirlíkingar og þurrflugur.
Staðhættir og aðgengi: Veiðistaðirnir eru flestir vel aðgengilegir en betra er að hafa jeppa við neðri hluta árinnar.